BREEAM Communities vottun á aðalskipulagi Vífilsstaðalands í Garðabæ ásamt BREEAM vottun á deiliskipulagi á svæðinu. Svæðið allt er mikilvægur hlekkur milli þéttbýlis og óbyggðra náttúrusvæða í nærumhverfi þess. Meginmarkmið skipulagsins er að móta heilsteypt skipulag vistvænnar byggðar, fjölbreyttrar íþróttastarfsemi og almennrar útivistar í sátt við náttúru svæðisins. Með BREEAM Communities vottun skipulagsins er tryggt að skipulagsgerðin taki mið af þessum markmiðum með því að ýta undir uppbyggingu sjálfbærari samfélaga. Sérfræðingar Mannvits hafa yfirumsjón með matsferlinu, veita ráðgjöf um ferlið og leiðbeiningar við úrvinnslu krafna ásamt því að meta hvort skipulagsferlið og gögn uppfylli kröfur sjálfbærnimatskerfisins.
Mynd: Batteríið
Nýtt hjúkrunarheimili Þingeyinga mun rísa í hlíðinni ofan Dvalarheimilisins Hvamms á Húsavík í lok árs 2023. Stefnt er að BREEAM vottun húsnæðisins þannig að íbúar njóti veru í húsnæðinu sem best. Sérstaklega verður hugað að góðri innivist. Gerð hefur verið lífsferilsgreining á verkinu og lagt upp með að öll byggingarefni styðji við vistvæn markmið hönnunar. Hönnun þessa 4400 fermetra húss er ætlað að skapa heimilislega umgjörð til að lifa og starfa frá degi til dags með útsýni yfir bæinn, Skjálfandaflóa og Kinnafjöllin. Byggingin verður brotin upp í smærri húseiningar, þær felldar inn í landið og íbúðum snúið að bænum. Á þann hátt gefst við íbúum tækifæri á að fylgjast með lífinu í bænum, njóta dagsbirtu og beinu aðgengi frá öllum sameiginlegum rýmum beint út í garð.
Mynd: Arkís
Við hönnun á nýjum Kársnesskóla var orkuhermun beitt til að skoða með hvaða hætti hægt væri hægt að draga úr orkunotkun byggingarinnar og bæta innivist fyrir nemendur og kennara. Með hugbúnaðinum má meta þætti í hönnunarferlinu sem skilar sér í betri og hagkvæmari byggingu og í senn spara orku og koma í veg fyrir að hönnun hússins valdi notendum óþægindum t.d. með miklum hita við suðurglugga, lélegri loftun eða dragsúg og slæmri hljóðvist. Mannvit hóf að bjóða hermihugbúnað á árinu 2019 sem er ný tækni við hönnun húsnæðis og nýtist vel við ákveðna útreikninga sem eru nauðsynlegir fyrir ýmis vistvottunarkerfi bygginga eins og BREEAM og Svansvottun.
Ljósmynd: Batteríið
Te & Kaffi hafa unnið að uppsetningu metankerfis við kaffibrennslu sína í Hafnarfirði. Metanið er nýtt sem orkugjafi til að rista kaffibaunir og leysir af hólmi própangas sem notað hefur verið hingað til. Með þessu mun draga verulega úr kolefnisspori kaffisins sem Te & Kaffi býður upp á enda er metanið framleitt af SORPU úr lífgasi sem verður til í gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA. Mannvit sá um fjárhagslega greiningu á verkefninu, brunatæknilega hönnun, skipulags- og leyfismál, hönnun gasgeymslu og metankerfis og aðstoðaði auk þess við innkaup búnaðar og prófanir.
Mynd: Te og kaffi
Unnin var aðgerðaáætlun fyrir Vesturland fyrir sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á vegum starfshóps Sorpurðunar Vesturlands. Markmið verkefnisins var að kortleggja stöðuna og leggja fram tillögur að aðgerðum til þess að hætta urðun lífræns og brennanlegs úrgangs og tryggja að meðhöndlun úrgangs sé í samræmi við ný lög og reglur.
Staðan á Vesturlandi er að mörgu leyti góð en fram undan er lagabreyting og mörg sveitarfélög þurfa að ráðast í breytingar á meðhöndlun úrgangs og skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Þannig má stuðla að aukinni endurnýtingu og sorpflokkun til þess að ná fram hagræðingu og bæta umgengni við náttúruna.
Tulu Moye Geothermal, sem er í eigu hins franska Meridiam og íslenska jarðhitafyrirtækisins Reykjavik Geothermal (RG), vinnur að uppbyggingu 50 megavatta jarðhitavirkjunar sem hugsanlega verður stækkuð í 150 MW á Tulu Moye jarðhitasvæðinu, 150 km suðaustur af Addis Ababa í Eþíópíu. Virkjunin mun skapa mikil verðmæti fyrir samfélagið, m.a. með fjölgun starfa á svæðinu þar sem hún stuðlar að uppbyggingu iðnaðar og ólíkra fyrirtækja ásamt því að dregið verður úr notkun jarðefnaeldsneytis þegar virkjunin kemst í gagnið. RG leggur mikla áherslu á að aðstoða við uppbyggingu svæðisins m.a. með stuðning við menntun, áherslum á jafnrétti, vegagerð og ekki síst raforkuvæðingu í strjálbýli ásamt vatnsöflun sem hvorutveggja er gríðarlega mikilvægt í samfélaginu.
RG býr yfir mikilli jarðhitaþekkingu ásamt meira en áratuga reynslu í undirbúningi jarðhitaverkefna í Austur Afríku og hefur unnið náið með Mannvit-Verkís, sem er sameiginlegt félag Mannvits og Verkís við undirbúning virkjunarinnar. Í því fólst hönnun og borráðgjöf fyrir allt að 12 framleiðslu- og niðurrennslisholur. Verkefnið er unnið í samstarfi við Landsvirkjun Power, ÍSOR og Eþíópíska verkfræðifyrirtækið MGM.
Mannvit hefur séð um alla hönnun vegna gagnavera Verne á Ásbrú. Þar fer fram ýmiskonar gagnaverastarfsemi en þó ekki gröftur eftir rafmynt. Gagnaverið nýtir endurnýjanlega raforku frá jarðvarma- og vatnsfallsvirkjunum og kælikerfin nýta eingöngu náttúrulega loftkælingu úthafsloftslagsins sem hér ríkir. Hvorki er notuð vélræn kæling né kælimiðlar í gagnaverinu.
Orkunýtni þeirra gagnavera sem sett hafa verið upp hjá Verne er með því besta sem þekkist í heiminum og rekstarhagkvæmnin einnig. Gagnaverið er tengt Evrópu og Bandaríkjunum með háhraðatengingum í gegnum Farice strenginn. Miklir vaxtarmöguleikar eru í samkeppni við meira mengandi hýsingaraðila gagna annars staðar í heiminum.
Ljósmynd: Verne
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbfix og hið svissneska Climeworks vinna sameiginlega að því að fanga og farga um 4.000 tonnum af CO2 úr andrúmslofti á ári hverju á Hellisheiði. Mannvit hefur unnið að uppbyggingu aðstöðu Climeworks, innan Jarðhitagarðs ON til að fanga CO2 úr andrúmslofti með sérþróaðri tækni Climeworks. Áætlað er að taka loftsuguverið í gagnið um mitt ár 2021. Carbfix tekur við koldíoxíðinu og fargar með niðurdælingu í berglög, þar sem það steingerist. Einstök tækni Carbfix við að binda koldíoxíð í bergi getur verið mikilvægur hlekkur til þess að Ísland nái loftlagsmarkmiðum sínum. Carbfix tæknina má jafnframt nýta á heimsvísu.
Mannvit hefur unnið náið með OR, eiganda Carbfix, í yfir 15 ár við rannsóknir, prófanir og þróun á tækni við að dæla koldíoxíði niður í jarðlög. Verksvið Mannvits í Carbfix verkefninu hefur verið yfirumsjón og samræming hönnunar, eftirlit með smíði, uppsetningu og umsjón með uppkeyrslu, ferilhönnun ásamt verkhönnun.
Ljósmynd: Climeworks Hellisheiði
Ný hituveitulögn fyrir íbúa á Höfn í Hornafirði fer um 20 km leið til um 600-700 húsa og markar þáttaskil fyrir bæinn. Meirihluti íbúa Hafnar í Hornafirði fékk vatn frá nýrri hitaveitu á árinu og lokið verður við að tengja nýja notendur við veituna þar og í sveitinni á fyrri hluta árs 2021. „Þetta er afar jákvætt fyrir íbúana. Rask fylgir framkvæmdunum hjá sumum íbúanna, á meðan á þessu stendur, en til lengri tíma mun þetta borga sig,“ sagði Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Hornafjarðar í viðtali við RÚV. RARIK lét bora rannsóknar- og vinnsluholur á jarðhitasvæðinu í Hoffelli eftir miklar rannsóknir og lagði í kjölfarið um 20 kílómetra langa stofnæð til Hafnar.
Ný hitaveita leysir eldri fjarvarmaveitu af hólmi á svæðinu og stuðlar að bættri orkunýtingu, aukinni sjálfbærni svæðisins og bættu orkuöryggi.
Sumarið 2019 réðst Landsnet í viðamikið verkefni við að leggja nýja byggðalínu, Kröflulínu 3, milli Norður- og Austurlands. Með nýrri línu verður afhending orku á Norður- og Austurlandi stöðugri og gæði hennar aukast. Verkefnið var brýnt enda mikilvægt að leysa gömlu byggðalínuna frá árinu 1978 af hólmi. Nýja byggðalínan ber heitið Kröflulína 3 og liggur um 122 km leið frá Kröflu að tengivirki Fljótdalsvirkjunar. Mannvit hafði heildareftirlit með framkvæmdinni sem fólst í að gera undirstöður fyrir möstur, reisa þau og strengja línur milli þeirra, leggja vegslóða og aðra jarðvinnu. Í óveðrinu á Norðvesturlandi 2019 kom bersýnilega í ljós að huga þarf sérstaklega að grunninnviðum samfélagsins og að þörf er á að bæta raforkuflutningskerfið víðsvegar á landinu.
Mannvit vinnur að hönnun og tillögu að matsáætlun vegna breikkunar Reykjanesbrautar í Hafnarfirði, frá Krýsuvíkurvegi að Hrauni vestan Straumsvíkur en þar lýkur fjögurra akreina kafla til vesturs úr Hafnarfirði. Núverandi vegur verður breikkaður úr tveimur samhliða akreinum í tvær aðskildar en með þessu eykst umferðaröryggi vegfarenda til mikilla muna. Núverandi vegur er nýttur í nýja framkvæmd og því hugað að ábyrgri auðlindanýtingu auk þess sem að uppbyggingin tryggir bættar og öruggari samgöngur á svæðinu.
Smáþörungaframleiðsla VAXA Technologies er nýtt bæði sem innihaldsefni til manneldis sem og í klakstöðvar fiskeldis. Með framleiðslunni er köldu og heitu vatni ásamt koltvísýring úr endurnýjanlegri raforku frá Hellisheiðarvirkjun ON breytt í próteinríkan Omega-3 lífmassa í formi þörunga. Aukaafurð ferlisins er súrefni. Nýting á þessari hátækni í fæðuframleiðslu er afar jákvætt skref í átt til virðishringrásar (e. waste to value).
Verkefnið stuðlar að bættri auðlindanýtingu, notuð er endurnýjanleg orka og styður við aðgerðir í loftslagsmálum. Þetta er því einstakt dæmi um sjálfbærni hér á landi. Mannvit hefur frá byrjun unnið með VAXA að uppbyggingu framleiðslunnar. Sérþekking Mannvits á hönnun, forritun og gangsetningu stjórnkerfa nýttist vel í þessu verkefni.