Ávarp forstjóra

Örn Guðmundsson

Spennandi verkefni og nýjar áskoranir framundan

Árið 2020 verður eftirminnilegt fyrir margar sakir og munar þar mestu um heimsfaraldurinn  en hann litaði svo um munar daglegt líf okkar allra og hafði töluverð áhrif á heimilin og rekstur fyrirtækja á Íslandi og á heimsvísu.

Mannvit er þar engin undantekning. Okkar helsta áskorun var að halda verkefnum gangandi og hlúa að starfsfólki okkar á þessum fordæmalausu tímum. Við lögðum sérstaka áherslu á að halda taktinum í verkefnum þar sem flest öll verkefni hjá Mannvit skapa afleidd störf fyrir samfélagið. Við lögðum kapp á að auka flæði upplýsinga og hugsuðum í lausnum þegar heimsfaraldurinn setti úrvinnslu verkefna skorður. Fjarvinna reyndist okkur vel. Starfsfólk Mannvits átti auðvelt með að laga sig að breyttum aðstæðum og fyrirséð er að fjarvinna er komin til að vera. Einnig erum við afar þakklát viðskiptavinum fyrir traustið og góða samvinnu á þessum tímum.

 

„Við finnum fyrir áhuga á sjálfbærni hjá viðskiptavinum og hagsmunaaðilum og sem eitt af stærri fyrirtækjum landsins í hönnun og ráðgjöf gegnum við mikilvægu samfélagslegu hlutverki.“

Að skapa og stuðla að sjálfbæru samfélagi er hlutverk Mannvits og sjálfbærni er tvinnuð inn í alla starfsemi fyrirtækisins. Þó árið væri krefjandi náði Mannvit árangri í markmiðum sínum tengdum sjálfbærnistefnu okkar. Sem dæmi um þá áfanga sem við erum stolt af má nefna verkefnið „Heimsmarkmið í fóstur“.

 

Verkefnið Heimsmarkmið í fóstur gengur út á að vekja starfsfólk til vitundar um heimsmarkmiðin og tengja þau við dagleg verkefni. Nokkrir faghópar fengu valin heimsmarkmið til að fóstra og tengja við verkefnin sín. Þá settum við okkur metnaðarfull markmið að fræða og auka vitund viðskiptavina okkar á vottunarferlum, hvort sem er tengt byggingum, skipulagi eða grænum skuldabréfum. Að lokum tryggði Mannvit sér einnig kolefnishlutleysi rekstrar með samningi við Kolvið um að jafna þann hlut sem ekki náðist að minnka.

 

Styrkur Mannvits sem alhliða þekkingarfyrirtæki með fjölbreytta þjónustu sýndi sig á árinu. Starfsfólki er þar fyrst og fremst að þakka en þrautsegja og jákvæðni einkenndi hópinn á þessu ári. Mig langar að þakka starfsfólki fyrir þann kraft og dugnað sem það sýndi í aðstæðum sem eiga sér enga hliðstæðu.

 

Árið 2021 hefst af krafti. Framundan eru spennandi verkefni og við tökum full af bjartsýni á móti nýjum áskorunum í átt að sjálfbærari framtíð.